Yfirlýsing Samtaka um Atferlisgreiningu á Íslandi (SATÍS)

 

 

 

3.10.2018

Vegna fyrirlesturs Dr. Dean Adams fyrir deild menntunar og margbreytileika á Menntavísindasviði og rannsóknarseturs í fötlunarfræðum á Félagsvísindasviði við Háskóla Íslands.

Fólk sem hefur menntað sig í atferlisgreiningu og starfar við það fag á Íslandi (atferlisfræðingar) mæla alltaf gegn og eru á móti notkun hverskonar aðferða sem valda sársauka, óþægindum eða eru á einhvern hátt skaðlegar.

Því miður er það svo að í flestum fögum getur átt sér stað misnotkun á aðferðum, samanber stofnun eins og Judge Rotenberg Center (JRC). Atferlisfræðingar á Íslandi mæla gegn þeirri vinnu sem fer fram á JRC og taka undir gagnrýni á því starfi sem þar fer fram. Þá teljum við mikilvægt að geta þess að vinnan sem fer fram á JRC er á engan hátt lýsandi fyrir störf atferlisfræðinga á Íslandi eða á öðrum Norðurlöndum.

Þau sem vinna við atferlisgreiningu hafa hag skjólstæðinga í hávegum og er það siðferðisleg skylda þeirra að vernda skjólstæðinga frá mögulegum skaða sem kemur vegna lélegrar þekkingar og/eða misnotkunar á aðferðum atferlisgreiningar (sbr. Yfirlýsing frá Association for Behavior Analysis, 1989). Atferlisfræðingar fylgja ströngum siðareglum, hvort sem það eru siðareglur félagsins sem vottar að fólk hafi næga þekkingu og þjálfun í atferlisgreiningu (https://www.bacb.com/ethics/ethics-code/) eða innan þess fags sem þeir vinna, t.d. í sálfræði eða menntunarfræði svo dæmi sé tekið.

Markmið atferlisfræðinga er alltaf að:

  1. nota aðferðir sem eru hvað minnst hamlandi (least intrusive) fyrir skjólstæðinginn og líklegar til þess að bæta lífsgæði hans.
  2. kenna færni sem er mikilvæg fyrir skjólstæðinginn (til dæmis að auka sjálfstæði einstaklings og sjálfræði, kenna tjáningu, veita einstaklingi val, kenna neitun).
  3. bæta umhverfið þannig að það sé líklegt til að leiða af sér umbun en ekki refsingu.
  4. öll þjónusta sé einstaklingsmiðuð.
  5. nýta sannreyndar aðferðir byggðar á ritrýndum rannsóknum þegar setja á upp hverskonar íhlutun/meðferð. Þetta þýðir að hver skjólstæðingur á rétt á íhlutun sem    sýnt hefur verið fram á að beri tilætlaðan árangur og sé hlíft við inngripum sem ekki         bera árangur.
  6. nota aðferðir sem byggjast á styrkingu hegðunar framar öðrum aðferðum.

Við hvetjum ykkur öll til að kynna ykkur það starf sem atferlisfræðingar vinna á Íslandi, hvort sem það er að spyrja þau sem hafa menntun og starfa við atferlisgreiningu eða á heimasíðu félagsins www.atferli.is.

 

Fyrir hönd stjórnar SATÍS

 

 

 

 

 

Þessi yfirlýsing var samþykkt af stjórn SATÍS 3. október, 2018.

Í stjórn SATÍS sitja:

Berglind Sveinbjörnsdóttir, PhD, BCBA, formaður

Steinunn Hafsteinsdóttir, MSc, BCBA, gjaldkeri

Katrín Sveina Björnsdóttir, MSc, ritari

Ása Rún Ingimarsdóttir, MSc, BCBA, meðstjórnandi

Hólmfríður Ósk Arnalds, MSc, BCBA, meðstjórnandi