Fyrsta Doktorsvörn á sviði Atferlisgreiningar á Íslandi

Þann 14 desember 2018 varð sá merki áfangi að Kristín Guðmundsdóttir varði doktorsverkefni sitt sem bar heitið; Snemmtæk íhlutun dreifbýlisbarna með fjarþjónustu sérfræðinga: Mat á áhrifum foreldraþjálfunar á færni barns og fjölskyldu (Rural  Behavioral Consultation: An Analysis of the Effects of Caregiver Training via Telehealth on Child and Family Progress), en þetta er fyrsta doktorsvörn á sviði atferlisgreiningar á Íslandi!

Umsjónarkennari og leiðbeinandi Kristínar var dr. Zuilma Gabríela Sigurðardóttir, prófessor við Sálfræðideild, og Shahla Alai-Rosales, dósent við Department of Behavior Analysis, University of North Texas. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd Lise Roll-Pettersson, prófessor  við Háskólann í Stokkhólmi, og Aksel Tjora, prófessor við NTNU-háskóla, Þrándheimi.

Ágrip af rannsókn

Meginmarkmið þessarar rannsóknar  var  að  meta  með  tilraunasniði  áhrif  þess að  kenna foreldrum dreifbýlisbarna  með  einhverfu, í gegnum fjarfund, gagnreyndar aðferðir atferlisgreiningar til að auka tjáskipta- og félagsfærni barna þeirra í dagsins önn. Að  auki var tilgangur rannsóknarinnar  að  afla ítarlegra upplýsinga frá foreldrunum um gagnsemi þjálfunaraðferðanna og fjarráðgjafarinnar.

Þátttakendur í rannsókninni voru fimm fjölskyldur, þ.e. foreldrar og ung börn þeirra með einhverfu, auk sérkennara eins barnsins. Tilraun  með  einliðasniði  (e.  single-subject  experimental design) var  gerð  til  þess  að  meta  áhrif  fjarþjálfunarinnar  á færni og hegðun þátttakenda.  Íhlutunin   í rannsókninni   fólst   í   íslenskri   útgáfu   af foreldraþjálfun sem nefnist Byrjum sólarmegin (e.  Sunny Starts) og var þróuð við  University  of  North  Texas.  Auk  tilraunasniðsins  var  félagslegt  réttmæti tilraunanna  kannað  með  eigindlegum  viðtölum  við  foreldrana  um  gagnsemi íhlutunarinnar og niðurstöður.

Niðurstöður  rannsóknarinnar sýndu  að  með  þjálfun umönnunaraðilanna  í  gegnum  fjarfund  jókst  kennslufærni  þeirra  sem aftur hafði jákvæð áhrif á tjáskipta- og félagsfærni barnanna. Niðurstöðurnar bæta við og staðfesta niðurstöður fyrri rannsókna á þessu sviði. Þá lýstu umönnunaraðilarnir breytingum í fari barna sinna sem voru í samræmi við niðurstöður tilraunanna auk þess sem þeir ræddu kosti og galla fjarráðgjafar og kennslu.

Niðurstöður þessarar rannsóknar gefa til kynna að foreldraþjálfun í gegnum fjarfund sé vænlegur valkostur fyrir fjölskyldur sem hafa takmarkaðan aðgang  að  gagnreyndri  snemmtækri  íhlutun  í  heimabyggð  og  nauðsynlegri sérfræðiþekkingu á því sviði. Hins vegar er frekari rannsókna þörf.

Um höfund:

Kristín Guðmundsdóttir er fædd árið 1970 í Reykjavík. Hún lauk stúdentsprófi  frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1990, BA-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 1996 og  MS-prófi í atferlisgreiningu frá University of North Texas árið 2002. Kristín hlaut sérfræðivottun í atferlisgreiningu (BCBA) árið 2003. Að loknu námi starfaði Kristín við atferlismeðferð einhverfra barna í Texas og hefur sinnt kennslu og ráðgjöf við börn með sérþarfir í íslensku skólakerfi, m.a. við Skólaskrifstofu Austurlands. Kristín er lektor í sálfræði við félagsvísinda- og lagadeild Háskólans á Akureyri og hefur starfað þar síðan 2006.

 

Við óskum Kristínu innilega til hamingju með þennan merka áfanga og vonumst til að hún geti frætt okkur betur um þessa áhugaverðu rannsókn á kaffihúsafundi eða ráðstefnu Satís í nánari framtíð.