Lög SATIS

um atferlisgreiningu á íslandi

Samþykkt á stofnfundi félagsins í Háskólanum í Reykjavík, 15. ágúst 2004 með breytingum   26. ágúst 2005, 18. október 2007 og 17. maí 2010.

1. gr. Félagið heitir Samtök um atferlisgreiningu á Íslandi, skammstafað SATÍS.Á ensku nefnist félagið Icelandic Association for Behavior Analysis, skammstafað ICEABA.

 • 2. gr. Tilgangur félagsins er:
  • að vera vettvangur áhugafólks um vöxt og viðgang atferlisgreiningar á Íslandi.
  • að kynna að koma á framfæri þekkingu á atferlisgreiningu.
  • að stuðla að velfarnaði og auknum lífsgæðum með aðferðum atferlisgreiningar.
  • að styðja hagnýtar rannsóknir og frumrannsóknir sem byggja á hugtakakerfi, tækni eða aðferðafræði atferlisgreiningar.
  • að liðsinna nemendum sem ætla í sérfræðinám innan atferlisgreiningar og öðrum sem vilja auka þekkingu sína á atferlisgreiningu.
  • að tengjast og styðja námsmenn í atferlisgreiningu og þá sem hafa lokið framhaldsnámi í greininni.
  • að stuðla að samstafi við sérfræðifélög og stéttarfélög á sviði atferlisgreiningar innanlands og utan.
  • að styðja stofnun sérfræði- eða stéttarfélags fólks með menntun á sviði atferlisgreiningar.
 • 3. gr. Skilyrði fyrir félagsaðild.
  Félagar geta orðið þeir sem styðja tilgang samtakanna.
 • 4. gr. Stjórn samtakanna.
  Stjórn samtakanna skipa þrír félagsmenn: Formaður, gjaldkeri og ritari sem einnig er staðgengill formanns.
  Kjörtímabil hvers stjórnarmeðlims er tvö ár. Samfelld stjórnarseta er heimil í þrjú kjörtímabil samfleytt. Kosið er til stjórnar á aðalfundi og ræður einfaldur meirihluti kjöri. Á sléttutöluári eru formaður og ritari kosnir en á oddatöluári er gjaldkeri kosinn.
  Stjórn er heimilt að fela einstökum félagsmönnum verkefni sem eru í samræmi við tilgang og markmið samtakanna.
  Tveir félagar skulu kosnir árlega á aðalfundi til að skoða reikninga félagsins.
 • 5. gr. Kosning til stjórnar, kjörgengi og umsjónarmaður kosninga.
  • Kjörgengi og kosningaréttur. Kjörgengi og kosningarétt hafa allir félagsmenn sem eru skuldlausir við samtökin á aðalfundi.
  • Kosning til stjórnar. Félagsmenn geta tilnefnt félaga til stjórnarsetu eða boðið sig fram til stjórnarsetu með tilkynningu til umsjónarmanns kosninga, eða með tilkynningu á póstlista/vefsíðu samtakanna í marsmánuði á kosningaári.
  • Kosning umsjónarmanns kosninga. Aðalfundur kýs félaga sem hefur umsjón með stjórnarkosningum. Umsjónarmaðurinn stendur utan stjórnar og er kjörtímabil hans þrjú ár.
  • Hlutverk umsjónarmanns kosninga eru:

  •  Að taka við tilnefningum vegna kjörs til embætta og yfirlýsingum þeirra sem ætla að vera í kjöri til stjórnar, skoðunarmanna reikninga og umsjónarmanns kosninga fyrir 1. apríl, og ganga úr skugga um að tilnefndir vilji vera í kjöri.
  •   Að útbúa og auglýsa lista yfir félaga sem eru í kjöri á vefsíðu/póstlista samtakanna fyrir 5. apríl á kosningaári.
  •  Að taka við tillögum félagsmanna um lagabreytingar fyrir 1. apríl og senda þær stjórn fyrir 5. apríl.
  •  Að taka við atkvæðum félaga sem geta ekki sótt aðalfund um stjórnarkjör og lagabreytingatillögur.
  •  Að hafa umsjón með stjórnar- og lagabreytingakosningum á aðalfundi.
  •  Að hafa umsjón með talningu atkvæða sem berast rafrænt og frá aðalfundi og birta niðurstöður kosninga á póstlista samtakanna.
  •  Að hafa umsjón með rafrænum kosningum sem stjórnin felur honum á milli aðalfunda.
  Umsjónarmaður er bundinn þagnarskyldu um hvernig einstakir félagar kjósa og skal afmá öll merki um sendendur rafrænna atkvæða. Sú þagnarskylda helst þótt viðkomandi láti af starfi. Umsjónarmaður getur tilnefnt staðgengil á fundum félagsins ef svo ber undir að umsjónarmaður getur ekki komið á fund. Staðgengill þessi mun tímabundið sinna verkum sem umsjónarmaður felur honum, s.s. talningu atkvæða. Staðgengill umsjónarmanns er bundinn sömu þagnarskyldu og umsjónarmaðurinn.
  e) Félagar sem ekki geta setið aðalfund geta kosið rafrænt til stjórnar og um lagabreytingar þótt þeir sitji ekki aðalfund. Atkvæði sín í stjórnarkjör þurfa þeir að senda umsjónarmanni a.m.k. sólarhring fyrir aðalfund, en atkvæði um lagabreytingartillögur og hugsanlegar breytingartillögur sem fram koma á aðalfundi þurfa að berast umsjónarmanni kosninga ekki síðar en sólarhring frá því að fundargerð aðalfundar hefur verið birt á póstlista samtakanna.

 • 6. gr. Aðalfundur.
  Aðalfundur skal haldinn á Íslandi í maí ár hvert. Stjórn skal boða til aðalfundar á póstlista og vefsíðu samtakanna fyrir 10 apríl. Félagsmenn án tölvuaðgangs fá sent fundarboð með venjulegum pósti svo framarlega að þeir hafi beðið stjórn samtakanna um það.
  Senda skal tillögur um lagabreytingar til umsjónarmanns kosninga fyrir 1. apríl.
  Umsjónarmaður leggur lagabreytingatillögur fyrir stjórn. Stjórn skal kynna lagabreytingatilllögur í aðalfundarboði.
  Aðalfundur er lögmætur og ályktunarhæfur sé löglega til hans boðað.
  Ákvarðanir aðalfundar eru æðsta vald samtakanna.
  Stjórnarkosningar skulu leynilegar. Aðrar kosningar skulu vera leynilegar komi fram um það tillaga sem er löglega samþykkt.
  Bókhald samtakanna skal liggja frammi á aðalfundi og vera öllum aðgengilegt og skipulega upp sett.
  Á aðalfundi skulu eftirfarandi mál vera á dagskrá:
  1. Stjórn félagsins gefur skýrslu um störf sín á liðnu ári.
  2. Gjaldkeri gerir glögga grein fyrir fjárumsvifum samtakanna.
  3. Skoðaðir reikningar stjórnar lagðir fram til samþykktar.
  4. Árgjald ákveðið til eins árs. Árgjald nemenda skal samsvara 50% af almennu árgjaldi.
  5. Lagabreytingar kynntar og kosið um þær.
  6. Stjórnarkjör (annað hvert ár).
  7. Árleg kosning tveggja skoðunarmanna reikninga.
  8. Áætlun um störf næsta árs.
  9. Önnur mál.
 • 7. gr. Félagsfundir og stjórnarfundir.
  a) Stjórn samtakanna skal boða til félagsfunda þegar þörf krefur, þó ekki sjaldnar en tvisvar á ári.
  b) Stjórn er skylt að boða til félagsfundar ef a.m.k. helmingur félaga óskar þess.
  c) Stjórn skal sjá til þess að félagar sem geta ekki sótt félagsfundi geti greitt atkvæði um mál á rafrænan hátt fyrir fund, á meðan á fundi stendur, eða í eina viku eftir að fundi líkur.
  d) Stjórn getur látið fara fram atkvæðagreiðslu um einstaka tillögur án þess að boða til félagsfundar. Tillögur sem greiða skal atkvæði um skal stjórn birta á póstlista og vefsíðu félagsins. Kosningu lýkur þremur vikum eftir birtingu, að undangenginni frjálsri umræðu á póstlista samtakanna og er hún eingöngu rafræn. Umsjónarmaður kosninga tekur við rafrænum atkvæðum og birtir stjórn og félögum niðurstöður á póstlista og vefsíðu samtakanna.
  e) Félagar geta sent fyrirspurnir, tillögur og hugmyndir um félagsstarfið til stjórnar á póstlista félagsins. Stjórn er skylt að svara slíkum erindum innan tveggja vikna frá birtingu erindis.
  f) Stjórn ákveður tíðni stjórnarfunda.
  g) Stjórn skal halda fundargerðir vegna stjórnar-, félags-, og aðalfunda og birta þær á póstlista félagsins.
 • 8. gr. Réttindi og skyldur félagsmanna.
  a) Félagsmenn skulu haga sér samkvæmt lögum samtakanna og ákvörðunum aðal- og félagsfunda.
  b) Félagsmaður hefur kosningarétt og fundaseturétt hafi hann greitt árgjald samtakanna fyrir tilsettan fund.
  c) Félagi sem ekki hefur greitt árgjald samtakanna fyrir 1. október ár hvert telst ekki lengur félagsmaður. Félagsaðild fylgir starfsári stjórnar, þ.e. frá einum aðalfundi til þess næsta.
  d) Heimilt er að víkja félagsmanni úr samtökunum hafi hann unnið alvarlega gegn tilgangi og markmiðum þeirra. Ákvörðun um brottvikningu er tekin af félagsmönnum sem sitja aðalfund og skal studd af 2/3 fundarmanna. Taka má brottrekinn félagsmann aftur í samtökin að einu ári liðnu, óski viðkomandi þess og 2/3 fundarmanna aðalfundar eru því meðmæltir.
  e) Félagsmenn sem náð hafa 67 ára aldri verða heiðursfélagar með sömu réttindi og skyldur og almennir félagar en þurfa ekki að greiða árgjald til samtakanna.
 • 9. gr. SATÍS  gefur út tímarit. Stjórn félagsins skipar ritstjóra úr röðum félagsmanna Ritstjórn tímarits SATÍS velur menn í ritnefnd sér til fulltingis. Ritstjóri tímarits SATÍS er skipaður eftir fyrsta starfsár stjórnar.
 • 10. gr. Vefsíða.
  SATÍS heldur úti vefsíðu. Stjórn félagsins skipar ritstjóra úr röðum félagsmanna.  Ritstjóri vefsíðu SATÍS velur menn í ritnefnd sér til fulltingis. Ritstjóri vefsíðu SATÍS er skipaður eftir fyrsta starfsár stjórnar.
 • 11. gr. Styrktarsjóður.
  SATÍS á styrktarsjóð nemenda í atferlisgreiningu. Þrír menn sitja í stjórn sjóðsins sem skipuð er af stjórn félagsins sem jafnframt skipar formann sjóðsins.
 • 12. gr. Félagsslit.
  Slíta má samtökunum á fundi sem hefur verið boðað til að ósk 2/3 félagsmanna, enda sæki 2/3 félagsmanna fundinn. Til að samtökunum verði slitið þurfa 2/3 fundarmanna að samþykkja tillögu þess efnis. Eignir samtakanna skulu þá renna til bókasafna þeirra háskóla sem bjóða námskeið á sviði atferlisgreiningar, til kaupa á bókum eða tímaritum á því sviði. Sé um fleiri en einn háskóla að ræða, deilist upphæðin jafnt á viðkomandi stofnanir.
 • 13.gr. Lagabreytingar.
  Lögum samtakanna má aðeins breyta á lögmætum aðalfundi. Lagabreyting hefur orðið ef 2/3 atkvæðisbærra fundarmanna greiða breytingunni atkvæði sitt. Forsenda þess að kosið sé um lagabreytingu er að hún hafi verið kynnt í aðalfundarboðun stjórnar fyrir 10. apríl.

Lög þessi voru fyrst samþykkt þann 15. ágúst 2004
Lögunum var breytt 26. ágúst 2005
Lögunum var breytt 18. október 2007
Lögunum var breytt 17. maí 2010