Um SATIS samtökin

Árið 1974 var í fyrsta skiptið kennt námskeið um atferlisgreiningu í grunnáminu í sálfræði við Háskóla Íslands. Frá árinu 1985 hefur valnámskeið í rannsóknaraðferðum atferlisgreiningar einnig verið kennt við H.Í. Í nokkrum öðrum námskeiðum í sálfræðináminu þar er líka fjallað um atferlisgreiningu.  Fram að þessu hafa nær allir Íslendingar sem farið hafa í framhaldsnám í atferlisgreiningu útskrifast með B.A. gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands.

Árið 2004 minntust sálfræðinemar við H.Í. 100 ára ártíðar B.F. Skinner með málþingi um atferlisgreiningu. Erindin sem þar voruflutt af háskólakennurum og öðrum sérfræðingum voru síðan gefin út í bókinni: “Hvar er hún nú? Arfleifð atferlisstefnunnar á 21. öld.

Við Háskólann í Reykjavík og Háskólann á Akureyri  eru starfandi kennarar með framhaldsmenntun í atferlisgreiningu.  Árið  samþykkti Alþjóðleg vottunarnefnd atferlisfræðinga  að námskeiðaröð MSc-námsins í sálfræði í HR uppfylli bóklegan hluta náms sem veitir sérfræðivottun í atferlisgreiningu (Board Certified Behaviour Analyst Examination).  Árið 2019 var sett á laggirnar MSc nám í hagnýtir atferlisgreiningu við Háskólan í Reykjavík sem einnig hefur þessa sérfræðivottun og er því MSc-námið í hagnýtri atferlisgreiningu við HR er eina námið á Íslandi sem hlotið hefur slíkt samþykki.  Við H.A. er námskeið í greiningu og mótun hegðunar kennt í sálfræðinámi við Félagsvísinda- og lagadeild.

Kennaraháskólinn bauð sumarnámskeið í boðritun (programmed instruction) árið 1975. Áður höfðu einstaka þættir atferlisgreiningar, þar með talið hlítarnám, hlaðrit, styrkingarhættir og kennslusvélar verið kynntir í náminu þar. Örfá valnámskeið um efni atferlisgreiningar hafa síðan verið kennd við KHÍ, en umfjöllun um atferlisgreiningu hefur þó dvínað þar og er lítil sem engin í dag.

Vert er að geta þess að fyrstu kynni margra nemenda af atferlisgreiningu hafa verið í framhaldsskólum landsins. Íslenskar inngangsbækur um sálfræði hafa flestar gert atferlisgreiningu nokkur skil og sumir framhaldsskólar komu sér upp tilraunaaðstöðu þar sem hægt var að skoða og greina lögmál náms og hegðunar við kjöraðstæður.

Núna eru 16 Íslendingar með framhaldsmenntun í atferlisgreiningu frá erlendum háskólum. Sjö nemendur eru núna í masters- og doktorsnámi í greininni í Bandaríkjunum og Evrópu. Einnig starfa nokkrir Íslendingar við kennslu og ráðgjöf á sviði atferlisgreiningar í háskólum og fyrirtækjum erlendis.

Þann 15. ágúst 2004 voru stofnuð Samtök áhugafólks um atferlisgreiningu á Íslandi (SATÍS). Árið 2011 var nafninu breytt í Samtök um atferlisgreiningu á Íslandi (SATÍS). Samtökin eru vettvangur áhugafólks um vöxt og viðgang atferlisgreiningar á Íslandi. Hlutverk samtakanna er að kynna og koma á framfæri þekkingu á atferlisgreiningu sem leið til bættra lífsgæða. Samtökin leggja áherslu á að styðja hagnýtar rannsóknir og frumrannsóknir á sviði atferlisgreiningar, tengjast nemendum og leiðbeina öllum þeim sem eru áhugasamir um þessa vísindagrein.

Félagsmenn eru um 80 talsins og koma úr ýmsum áttum. Í hópnum eru m.a. atferlisfræðingar, sálfræðingar, þroskaþjálfar, kennarar, háskólanemar og foreldrar barna með þroskaraskanir. Þessi fjölbreytti hópur speglar staðreyndina að atferlisgreining er ekki “eign” ákveðinnar starfsstéttar.  Félagsmenn hafa aðgang að póstlista þar sem rætt er um ýmis mál tengd atferlisgreiningu. Formaður SATÍS er Berglind Sveinbjörnsdóttir PhD, BCBA-D, ritari Hanna Steinunn Steingrímsdóttir PhD og gjaldkeri er Steinunn Hafsteinsdóttir MSc-BCBA.

Samtökin eru öllum opin. Til að gerast félagi:

Hafið samband á netfangið satis.felag@gmail.com eða á Facebook síðu félagsins undir SATÍS – ICEABA.

Atferlisgreining er vísindagrein með sérstakt hugtakakerfi og rannsóknaraðferðir sem hægt er að nota í öllum fræði- og vísindagreinum sem fást við að lýsa, skýra, spá fyrir um og stjórna hegðun manna og lífvera.

Áhrif atferlisgreiningar fara vaxandi hérlendis þegar fólk með framhaldsmenntun í greininni flytur heim að loknu námi. Áhrif hennar hafa mest verið í málefnum fatlaðra, námi og kennslu auk stjórnunar og slysavarna.  Íslenskir atferlisfræðingar hafa verið ötulir við atferlisráðgjöf og haldið fyrirlestra og námskeið innanlands og á sérfræðiráðstefnum erlendis.  Um árabil hefur fjöldi þekktra erlendra vísindamanna í atferlisgreiningu heimsótt Ísland og haldið hér námskeið og fyrirlestra.  Skrif um atferlisgreiningu fyrir almenning og í sérfræðritum fer fjölgandi. Íslenskir atferlisfræðingar eru umsagnaraðilar um styrkjaumsóknir og eru ritrýnar fyrir innlend og erlend sérfræðitímarit, auk þess að sitja við ritstjórnarborð virtra erlendra tímarita í atferlisgreiningu. Fyrsta rita- og greinaskrá SATÍS var tekin saman vorið 2006. Hún inniheldur 160 heimildir um  atferlisgreiningu á íslensku auk skrifa Íslendinga um atferlisgreiningu á öðrum tungumálum en móðurmálinu. Íslenskir námsmenn hafa skrifað 52 lokaritgerðir þar sem atferlisgreining eða svið henni tengd hafa verið meginefnið.

SATÍS félagar eiga einkum samskipti á Facebook-hóp félagsins (SATÍS-ICEABA) en hópurinn telur um 120 meðlimi. Facebook síða félagsins er einnig virk og þar eru reglulega settar inn fréttir og upplýsingar sem varða atferlisgreiningu á Íslandi.

*  Síðast uppfært í mars 2019