Atferlisgreining (e. behavior analysis) er vísindagrein sem fæst við rannsóknir og hagnýtingu á lögmálum hegðunar. Meginmarkmið vísindagreinarinnar er að öðlast skilning á því hvernig megi spá fyrir og hafa áhrif á hegðun einstaklinga og lífvera. Rannsóknir á hegðun hafa sýnt að hún er að stórum hluta lærð og henni er viðhaldið af umhverfi okkar, ekki síst félagslegu umhverfi. Viðfangsefni atferlisgreiningar eru fjölbreytt, allt frá frumrannsóknir á hegðun einstaklinga og annarra lífvera, hagnýting í klínísku starfi og kennslu og stjórnun fyrirtækja.
Atferlisgreining er ekki bundin við tiltekna hegðun einstaklinga, samfélagshópa eða lausnir á ákveðnum vandamálum, heldur fjallar vísindagreinin um alla hegðun í víðum skilningi þess hugtaks, þar á meðal mál, hugsun og tilfinningar.
Hagnýt atferlisgreining (e. applied behavior analysis) leggur áherslu á notkun vísindalegra aðferða til að leysa ýmsar áskoranir sem upp geta komið í samfélaginu. Velferð þeirra einstaklinga sem njóta þjónustunnar er ávallt höfð í fyrirrúmi, og sjónum beint að því að bera kennsl á lausnir sem líklegar eru til að bera árangur. Í hagnýtri atferlisgreiningu byggir fagfólk vinnu sína á niðurstöðum frum- og hagnýtra rannsókna þar sem sýnt hefur verið fram á að tiltekin íhlutun eða kennsluaðferð beri árangur (evidence-based practice).
Fyrir nokkrum árum var komið á fót sérfræðivottun í atferlisgreiningu (Board Certified Behavior Analyst, BCBA). Þetta var gert til að gera aðilum sem njóta þjónustu fagfólks í atferlisgreiningu betur kleift að greina á milli þeirra sem hafa lágmarksmenntun og reynslu í atferlisgreiningu og þeirra sem hafa ekki þessa menntun og reynslu. Sérstök stofnun í Bandaríkjunum, The Behavior Analyst Certification Board®Inc hefur umsjón með þessari sérfræðivottun.
Frá 2020 hefur stjórn SATÍS ásamt öðrum sérfræðingum í atferlisgreiningu, unnið að menntunar-, handleiðslu- og endurmenntunarviðmiðum fyrir sérfræðinga og fagaðila í atferlisgreiningu. Árið 2022 var SATÍS breytt í fagfélag og árið 2024 var sett af stað skráningarkerfi fyrir atferlisfræðinga og klíníska atferlisfræðinga. Ný viðmið fyrir atferlisfræðinga og klíníska atferlisfræðinga munu taka gildi 1.janúar 2025.