Siðareglur SATÍS – Drög að siðareglum birtar 21.mars 2025. Þær verða endurskoðaðar í september 2025. Athugasemdir sendist til satis.felag@gmail.com.

Inngangur að siðareglum atferlisfræðinga

Siðareglur þessar gilda fyrir öll þau sem falla undir viðmið SATÍS fyrir starfsheitið atferlisfræðingur og klínískur atferlisfræðingur. Atferlisfræðingar skulu viðhafa siðferðilega ígrundun og þekkja siðareglur sem gilda um störf þeirra. Siðareglur þessar má ekki líta á sem tæmandi lista yfir þær aðstæður og alla þá hegðun sem mögulega gæti talist ósiðleg. Verði vart við brot á siðareglum, eða grunur leikur á að unnið sé í bága við siðareglur þessar, ber að tilkynna það til siðanefndar SATÍS. Að auki ber atferlisfræðingum að þekkja þau lög og þær reglugerðir sem gilda fyrir þann skjólstæðingahóp sem unnið er með hverju sinni.  Röð reglnanna er ekki eftir mikilvægi heldur ber að lesa þær sem eina heild. 

1 kafli – Gæta öryggis og ekki valda skaða

1.1          Atferlisfræðingum ber að vinna út frá hagsmunum skjólstæðinga, gæta þess að virða réttindi og hagsmuni þeirra. 

1.2          Atferlisfræðingar skulu ávallt útiloka mögulegar læknisfræðilegar eða líffræðilegar orsakir hegðunar (t.d. sársauka) og vísa áfram til viðeigandi fagaðila ef grunur er um slíkt áður en önnur íhlutun er valin.

1.3          Atferlisfræðingar þekkja til og vinna eftir lögum og alþjóðlegum sáttmálum um þjónustu við þá skjólstæðinga sem þeir vinna með hverju sinni.

1.4          Atferlisfræðingar gæta þess að þjónusta þeirra við skjólstæðinga sé samfelld og án truflunar. 

1.5          Atferlisfræðingar nota hvorki né samþykkja beitingu skaðlegra og/eða niðurlægjandi aðferða.

2 kafli – Fjölbreytileiki 

2.1          Atferlisfræðingar leitast við að auka þekkingu sína á ólíkri menningu og margbreytileika.

2.2          Atferlisfræðingar skulu gæta jafnræðis og íhuga eigin fordóma, hlutdrægni og eigin getu til að veita þjónustu fólki með ólíkar þarfir og/eða bakgrunn, óháð t.d. aldri, fötlun, þjóðerni, kynvitund, kynþætti, trú, kynhneigð, litarhætti og félagslegri stöðu. 

2.3          Atferlisfræðingar misnota ekki vald sitt í störfum sínum.

3 kafli – Gagnreyndar og uppbyggilegar aðferðir

3.1          Atferlisfræðingar beita gagnreyndum aðferðum sem byggja á ítarlegri greiningu á hegðun, lögmálum náms og hegðunar og taka tillit til ólíkra þarfa skjólstæðinga.

3.2          Atferlisfræðingar skulu ávallt hafa að markmiði að íhlutun bæti færni, aðlögun, líðan og almenn lífsgæði skjólstæðinga og dragi úr hættu á skaða að teknu tilliti til gilda, þarfa og óska skjólstæðinga. Þá skal ávallt miða að því að hegðunarbreyting viðhaldist í náttúrulegum aðstæðum. 

3.3          Atferlisfræðingar veita aðeins þjónustu byggða á annarri nálgun en atferlisgreiningu ef þeir eru til þess bærir.

3.4          Atferlisfræðingar upplýsa skjólstæðinga og hagsmunaaðila um gagnreyndar aðferðir og íhlutun. 

4 kafli – Fagleg ábyrgð

4.1 Tryggja samþykki, trúnað og persónuvernd

4.1.1     Atferlisfræðingar virða einkalíf skjólstæðinga og annarra hagsmunaaðila og virða nafnleynd allra sem að koma. Þeir skulu fylgja lögum og reglum um persónuvernd. Nafnleynd nær til allra þjónustuþátta, hvort sem upplýsingar eru skriflegar eða munnlegar. 

4.1.2     Atferlisfræðingar hafa eingöngu leyfi til að deila upplýsingum um mál  (1) með þeim sem hafa beina aðkomu að málinu (t.d. foreldrar ungra barna), (2) með samstarfsfólki í teymi viðkomandi skjólstæðinga sem hafa skrifað undir trúnaðaryfirlýsingu, (3) með öðrum sem koma ekki beint að málinu eftir að upplýst samþykki hefur verið fengið frá skjólstæðingi eða forsjáraðilum, (4) ef viðkomandi einstaklingur er sjálfum sér eða öðrum hættulegur, (5) ef yfirvöld gera lögmæta kröfu um innsýn í mál skjólstæðings (t.d. lögregla). Í slíkum tilfellum skal einungis deila nauðsynlegum upplýsingum með þriðja aðila og halda trúnaði um annað.

4.2 Hagsmunagæsla skjólstæðinga

4.2.1     Atferlisfræðingar skulu ávallt hafa hagsmuni skjólstæðinga að leiðarljósi þegar unnið er í teymi.

4.2.2     Atferlisfræðingar skulu ávallt vera í samvinnu við skjólstæðinga og/eða aðstandendur/forsjáraðila/persónulega talsmenn þegar ákvarðanir eru teknar er varða val á markmiðum íhlutunar, tegund íhlutunar, endurmat og annað er viðkemur þjónustu atferlisfræðingsins.

4.2.3     Atferlisfræðingar átti sig á hverjir hagsmunaaðilar eru í hverju máli. Þegar um marga hagsmunaaðila er að ræða (t.d. foreldra, kennara, þroskaþjálfa), ber að skoða aðkomu hvers og eins, ábyrgð og skyldur. Þá er mikilvægt að halda opinni umræðu um hlutverk hagsmunaaðila þegar þjónusta er veitt.

4.2.4     Atferlisfræðingar skulu gera grein fyrir aðkomu sinni og væntingum til þjónustunnar við ráðningu af þriðja aðila (t.d. skóla). Hagsmunir skjólstæðings eru alltaf ofar hagsmunum þriðja aðila. Sé beiðni þriðja aðila þess eðlis að atferlisfræðingur hafi ekki þekkingu/reynslu til að sinna því ber atferlisfræðingi að sækja sér handleiðslu eða vísa máli frá sér. Verði hagsmunaárekstur skulu atferlisfræðingar leita leiða til að leysa það. Gangi það ekki skal atferlisfræðingur segja sig frá málinu og/eða beina hagsmunaaðilum annað.

4.2.5     Atferlisfræðingar leitast eftir að fá ráðgjöf og álit frá öðrum fagaðilum þegar við á (s.s. talmeinafræðingum, sálfræðingum, öldrunarlæknum, o.s.frv.). Þó skal gæta trúnaðar við skjólstæðinga og fylgja lögum og reglum sem gilda um þjónustuna (t.d. persónuverndarlögum, barnaverndarlögum og farsældarlögum).

4.3 Ábyrgð atferlisfræðings sem fagaðili

4.3.1     Atferlisfræðingar segja satt og rétt frá, haga fagumhverfi sínu á þann hátt að það styðji við sannsögli annarra og skapa ekki aðstæður sem leiða til óheiðarleika eða lögbrota.

4.3.2     Atferlisfræðingar fylgja almennum lögum landsins, reglugerðum og  mikilvægum alþjóðasáttmálum um velferð og réttindi barna og fullorðinna, ásamt því að fylgja faglegum kröfum SATÍS og þeirra stofnana sem atferlisfræðingur starfar hjá.

4.3.3     Atferlisfræðingar bera ábyrgð á eigin hegðun. Ef eitthvað kemur í veg fyrir að atferlisfræðingur geti sinnt starfi sínu með faglegum hætti ber viðkomandi að finna leiðir til að bregðast við því með hag skjólstæðings í fyrirrúmi.

4.3.4     Atferlisfræðingar sýna vinsemd og virðingu gagnvart fjölbreytileika skjólstæðinga, aðstandenda, samstarfsfólki og öðrum.

4.3.5     Atferlisfræðingar veita  eingöngu þjónustu eftir að hafa greint hagsmunaaðilum frá aðkomu sinni, í hverju hún felst og hvaða væntingar hægt sé að gera til þjónustunnar.

4.3.6     Atferlisfræðingar veita aðgang að eigin sakavottorði, prófskírteini, meðmælum, starfsvottorðum og öðrum sambærilegum gögnum sé þess óskað af vinnuveitendum, skjólstæðingum og/eða aðstandendum þeirra. Sé atferlisfræðingur ekki með hreint sakavottorð skv. lögum um þjónustu við fólk með langvarandi stuðningsþarfir ber viðkomandi að láta bæði skjólstæðinga og SATÍS vita. 

4.3.7     Atferlisfræðingum ber að fara eftir reglum sem vinnustaðir þeirra setja hverju sinni varðandi möguleg hagsmunatengsl milli skjólstæðings og atferlisfræðings. Ef hagsmunatengsl koma í veg fyrir að þjónusta sé veitt ber atferlisfræðingi að leiðbeina skjólstæðingi annað sé þess óskað. 

4.3.8     Atferlisfræðingar veita aðstoð eins fljótt og kostur er og upplýsa skjólstæðinga um áætlaðan tímaramma þjónustunnar, s.s. hvenær mat fer fram, hvenær íhlutun getur hafist, hvenær endurmat getur mögulega farið fram o.s.frv.

4.3.9     Atferlisfræðingar upplýsa skjólstæðing eða hagsmunaaðila um þær aðstæður sem geta leitt til að þjónustu sé hætt. Slíkar aðstæður eru t.d. (1) þegar skjólstæðingur hefur náð markmiðum sínum, (2) ef það er ekki breyting til hins betra fyrir skjólstæðing, (3) þegar atferlisfræðingar eða aðrir eru í hættu og ekki hægt að tryggja öryggi, (4) þegar skjólstæðingur eða hagsmunaaðilar biðja um að þjónustu sé hætt, (5) þegar skjólstæðingur eða hagsmunaaðilar hafna tillögum atferlisfræðings og málamyndanir eru ekki mögulegar. 

4.3.10  Atferlisfræðingar veita stuðning og miðla mikilvægum upplýsingum ef þjónusta færist á milli fagaðila svo fremi sem slíkt brýtur ekki í bága við persónuverndarlög eða brot á trúnaði.

4.4 Atferlisfræðingar þekkja sínar takmarkanir

4.4.1     Atferlisfræðingar taka aðeins að sér mál sem þau hafa færni og þekkingu til að takast á við og (a) vísa áfram til annarra atferlisfræðinga þegar reynslu, færni og/eða þekkingu skortir, (b) upplýsa um eigin takmarkanir og (c) verða sér út um þekkingu og handleiðslu frá aðilum sem hafa forsendur til að veita slíkt.

4.5 Gagnasöfnun

4.5.1     Atferlisfræðingar halda skrá utan um þá þjónustu sem er veitt svo hægt sé að tryggja ábyrgð og að þjónustan sé í samræmi við siðareglur og lög sem gilda um þjónustuna. 

4.5.2     Atferlisfræðingar fara eftir lögum og reglugerðum um vinnslu persónuupplýsinga.

4.5.3     Atferlisfræðingar skulu safna gögnum um hegðun sem unnið er með hverju sinni, greina gögnin jafnt og þétt og bregðast við þeim eftir því sem íhlutun  vindur fram ásamt því að taka gagnastýrðar ákvarðanir um íhlutunina. 

4.5.4     Atferlisfræðingar sem safna gögnum vegna rannsókna ber að fylgja öllum lögum og siðareglum sem gilda um slíka framkvæmd. Ekki skal búa til gögn eða breyta gögnum í þeim tilgangi að blekkja fólk. Þá skal fylgja almennum reglum um vistun gagna á öruggum svæðum og gæta þess að gögn falli ekki í hendur óviðkomandi aðila. 

4.5.5     Atferlisfræðingum ber að upplýsa ef upp koma hagsmunaárekstrar við undirbúning, framkvæmd eða úrvinnslu gagna í rannsókn. Þá skulu atferlisfræðingar virða hugverkarétt annarra. Ritstuldur er andstæður siðareglum þessum.   

4.6 Upphaf og lok þjónustu 

4.6.1     Atferlisfræðingar fylgja almennum lögum og reglum þegar kemur að verktakagreiðslum.

4.6.2     Atferlisfræðingar stuðla að því að samkomulag sé gert sem lýsir verkaskiptingu og ábyrgð þeirra sem vinna í málinu.

4.6.3     Atferlisfræðingar skulu gæta þess að upplýsa hagsmunaaðila eins nákvæmlega og hægt er um kostnað þjónustunnar og líklegan tímaramma.

4.6.4     Atferlisfræðingar gefa hvorki né þiggja verðmætar persónulegar gjafir frá skjólstæðingum eða aðstandendum. Séu gjafir gefnar til fyrirtækis eða til stærri hóps (t.d. kaffistofu starfsmanna) geta atferlisfræðingar þegið gjöfina til jafns við aðra.

4.6.5     Atferlisfræðingar gæta tímanlega að því að finna eftirmann ef rof verður í þjónustu (t.d. ef atferlisfræðingur flyst í starfi eða fer í leyfi) og skráir hvernig þjónusta færist á milli.

5 kafli – Ábyrgð í opinberum yfirlýsingum

5.1          Atferlisfræðingar leggja áherslu á réttindi skjólstæðinga í opinberum yfirlýsingum um þá. 

5.2          Atferlisfræðingar gæta trúnaðar við skjólstæðinga þegar skrifaðar eru opinberar yfirlýsingar.

5.3          Atferlisfræðingar veita ekki ráðgjöf á opinberum vettvangi (svo sem á samfélagsmiðlum). 

5.4          Atferlisfræðingar tala ekki um íhlutun sem atferlisíhlutun ef hún byggir ekki á lögmálum hegðunar eða aðferðum atferlisgreiningar. Atferlisfræðingar tilkynna til SATÍS þegar þeir telja íhlutun sé lýst sem atferlisíhlutun þegar svo er ekki. Ennfremur tilkynna atferlisfræðingar til SATÍS þegar atferlisíhlutun er ranglega flokkuð sem eitthvað annað.

5.5          Atferlisfræðingum  er óheimilt að tjá sig um málefni skjólstæðinga á eigin samfélagsmiðlum án þess að hafa upplýst samþykki frá viðkomandi skjólstæðing og/eða hagsmunaaðilum þegar við á. 

Lokaorð

Siðareglur eru ekki aðeins til að vernda skjólstæðinga heldur einnig til að tryggja trúverðugleika fagsins. Atferlisfræðingar á Íslandi fylgja þessum reglum til að efla fagleg vinnubrögð og stuðla að velferð einstaklinga og samfélags. 

Teljir þú að siðabrot hafi átt sér stað þá ber að tilkynna það til siðanefndar Satís.  Finna má leiðbeiningar hvernig má tilkynna á heimasíðu SATÍS. 

Scroll to Top