Hvað er atferlisgreining

Hvað er atferlisgreining?

Atferlisgreining (e. behavior analysis; experimental analysis of behavior) er vísindagrein sem fæst við rannsóknir og hagnýtingu á lögmálum hegðunar. Meginmarkmið vísindagreinarinnar er að öðlast skilning á því hvernig megi spá fyrir og hafa áhrif á hegðun einstaklinga og lífvera. Rannsóknir á hegðun hafa sýnt að hún er að stórum hluta lærð og henni er viðhaldið af umhverfi okkar, ekki síst félagslegu umhverfi. Viðfangsefni atferlisgreiningar eru fjölbreytt, til dæmis frumrannsóknir á hegðun einstaklinga og annarra lífvera, hagnýting í klínísku starfi, kennsla og stjórnun fyrirtækja. Atferlisgreining er ekki bundin við tiltekna hegðun einstaklinga, samfélagshópa eða lausnir á ákveðnum vandamálum, heldur fjallar vísindagreinin um alla hegðun í víðasta skilningi þess hugtaks, þar á meðal mál, hugsun og tilfinningar.

Hagnýt atferlisgreining (e. applied behavior analysis) leggur auk þess áherslu á notkun vísindalegra aðferða til að leysa samfélagsleg vandamál af ýmsu tagi. Velferð þeirra einstaklinga sem njóta þjónustunnar er ávallt höfð í fyrirrúmi, og sjónum beint að því að bera kennsl á lausnir sem líklegar eru til að bera árangur. Í hagnýtri atferlisgreiningu byggja atferlisfræðingar vinnu sína á niðurstöðum frumrannsókna á hegðun og hagnýtra rannsókna þar sem sýnt hefur verið fram á að tiltekin meðferð eða kennsluaðferð beri árangur (evidence-based practice/treatment).

Hagnýt viðfangsefni greinarinnar eru afar fjölbreytt. Sem dæmi má nefna:

  • uppeldi barna og unglinga
  • almenn kennsla – börn og fullorðnir
  • einstaklingar með þroskaskerðingu – þjálfun, kennsla og greining á hegðunarvanda
  • einhverfa – kennsla, meðferð og greining á hegðunarvanda
  • sérkennsla – börn og fullorðnir
  • hegðunarvandi barna á heimilum, leikskólum og í skólum
  • tilfinningaörðugleikar
  • spilafíkn
  • offita
  • endurhæfing einstaklinga með heilaskaða
  • aldraðir
  • frammistöðustjórnun í fyrirtækjum og stofnunum
  • öryggismál á vinnustöðum
  • umferðaröryggi
  • umhverfisvernd
  • íþróttaþjálfun
  • hagfræði

Vinna í hagnýtri atferlisgreiningu krefst mikillar nákvæmni, þjálfunar og reynslu af hendi atferlisfræðingsins eigi íhlutun að bera árangur. Greining á hegðun og íhlutun á vandanum krefst oft mikillar vinnu og undirbúnings og getur ferlið tekið dágóðan tíma, rétt eins og læknis- eða sálfræðimeðferð. Atferlisfræðingar fylgjast með skjólstæðingum sínum þar sem því verður við komið og skrá upplýsingar um hegðun þeirra, til dæmis í skólastofu eða á skólalóð.  Í mörgum tilvikum skrá skjólstæðingar sjálfir hegðun sína eða aðstandendur þeirra.  Þannig safna atferlisfræðingar upplýsingum um samspil umhverfis og hegðunar.  Þessar upplýsingar eru síðan notaðar í ráðgjöf, íhlutun og kennslu. Atferlisfræðingar þjálfa einnig og kenna sjálfir skjólstæðingum sínum og leiðbeina því fólki sem heldur kennslunni áfram eftir að hlutast hefur verið til um hegðunina. Skráningu er haldið áfram eftir að kennsla eða íhlutun hefst og þannig er mögulegt að meta jafnharðan hvort árangur hefur náðst eða hvort breyta þurfi kennslu eða aðferðum við íhlutun.

Fyrir nokkrum árum var komið á fót alþjóðlegri sérfræðivottun í atferlisgreiningu (Board Certified Behavior Analyst, BCBA).  Þetta var gert til að gera aðilum sem njóta þjónustu atferlisgreinenda betur kleift að greina á milli þeirra sem hafa lágmarksmenntun og reynslu í atferlisgreiningu og þeirra sem hafa ekki þessa menntun og reynslu. Sérstök stofnun í Bandaríkjunum, The Behavior Analyst Certification Board®Inc hefur umsjón með þessari sérfræðivottun. Frekari upplýsingar má finna annars staðar á vefsíðu SATÍS (sjá Um BACB) og á vefsíðu BACB.

Atferlisgreining er vaxandi fræðigrein, sem meðal annars sést á því að félögum í alþjóðlegu samtökunum Association for Behavior Analysis fjölgar ár frá ári og þeim háskólum fjölgar stöðugt í heiminum sem bjóða upp á framhaldsnám í greininni. Frá 1977 hafa alls 36 Íslendingar lagt stund á framhaldsnám í atferlisgreiningu erlendis, þar af hafa 20 bæst í hópinn undanfarinn áratug. Meirihluti þeirra sem lokið hafa námi starfar nú á Íslandi, en aðrir búa og starfa erlendis við hagnýt störf, háskólakennslu og/eða rannsóknir, enda er eftirspurn mikil eftir fólki með menntun í greininni.