Lestur, skrift og reikningur

Grein birt á mbl/Árni Sæberg adda

Ég hef engan áhuga á dyslexíu, ég bara kenni þeim að lesa, var svarið sem ég fékk í Morningside Academy-grunnskólanum í Seattle, þegar ég spurði hvað þau gerðu við lesblinda nemendur.

Ég hef engan áhuga á dyslexíu, ég bara kenni þeim að lesa, var svarið sem ég fékk í Morningside Academy-grunnskólanum í Seattle, þegar ég spurði hvað þau gerðu við lesblinda nemendur. Þar lærði ég sumarið 1999 að beita aðferðunum “beinum fyrirmælum” til að frumkenna nýtt námsefni, og “hnitmiðaðri færniþjálfun með mælingum” til að meta jafnóðum raunfærni hvers nemanda, framfarir hans og árangur kennslunnar,” segir Guðríður Adda Ragnarsdóttir atferlisgreinandi og kennsluráðgjafi.

Morningside er einkarekinn grunnskóli sem vakið hefur athygli fyrir ótvíræðan árangur í kennslu. Þangað sækja nemendur sem illa gengur að lesa, skrifa og reikna, nemendur með greiningu um athyglisbrest og ofvirkni, og nemendur sem dregist hafa aftur úr jafnöldrum sínum, eða flosnað upp úr öðrum skólum án viðunandi skýringa.

“Aferðirnar eru þaulreyndar og rannsakaðar, þær byggjast á ítrekaðri reynslu og staðfestri þekkingu,” segir hún og að kennslutæknin sé einnig þess eðlis að kennarinn geti samhæft kennsluna við kerfisbundnar rannsóknir á framförum nemenda sinna.

Auk þess að kenna kennslu, er hægt að kenna hvað sem er, eins og eðlisfræði, símsvörun, bókmenntir, stjórnun, heimspeki, tölvunotkun eða vegghleðslu svo dæmi séu tekin. “Athygli mín hefur aðallega beinst að gagnsemi aðferðanna við að kenna grundvallaratriði s.s. greiningu málhljóða og bókstafi, talnaleikni ýmiss konar og aðgerðir í reikningi út frá svokölluðum talnafjölskyldum, sem og ýmsar reglur í tungumálum.”

Ef eldri nemendur eru í vanda með það námsefni sem þeir eiga að kunna skil á, hjálpar þeim ekki að efnið sé þyngt enn meir, né að meiri tíma sé varið til að þræla þeim í efni sem þeir ráða hvort eð er ekki við. Þess í stað þarf að finna hvaða atriði það eru sem nemandinn strandaði á og hafa truflað allt sem síðar kom og á þeim byggðist, eins og að lesa ranglega úr tölum, kunna ekki að taka til láns eða geyma, spegla tölustafi, eða þekkja ekki hvaða málhljóð svara til hvaða bókstafa. Atriðin eru leiðrétt og æfð þar til þau falla mjúklega að öðru í náminu og nemandinn getur nýtt þau vandræðalaust fyrir það sem á eftir kemur.

Námsefnið

Námsefnið er fleygað í atriði eða stök sem raðað er í rökrétta samfellu frá hinu einfalda til hins flókna. Kennslu hvers atriðis vindur fram með fastri hrynjandi og felur í sér merkjanlegt ferli; sýna – leiða – prófa sem er endurtekið þar til nemandinn getur gert eða sagt það sem verið er að kenna honum. Ekki ólíkt því sem þeir þekkja sem lært hafa að spila á hljóðfæri. Kennarinn spilar og nemandinn hlustar, kennarinn spilar sama lagið aftur og nemandinn spilar með, og síðan spilar nemandinn einn og kennarinn hlustar. Í kvikmyndinni um Ray Charles má einmitt sjá þetta í örstuttri svipmynd um upphaf píanónáms meistarans þegar hann, smápeyi, ranglar inn á krána og hittir píanistann.

“Bein fyrirmæli er vel þekkt kennslutækni. Ítarlegar rannsóknir sýna að hún beri höfuð og herðar yfir aðrar kennsluaðferðir sem skoðaðar hafa verið á kerfisbundinn hátt. Að sjálfsögðu eigum við að gera hliðstæðar kröfur til aðferða í kennslu og við gerum um aðra þjónustu sem getur skipt sköpum í lífi okkar,” segir hún.

Guðríður Adda segir að hér sé á ferðinni einstaklingsbundið nám, en það skipti í sjálfu sér engu máli í getublönduðum hópi þar sem kennt er á hefðbundinn hátt hvort nemendur eru inni í venjulegri skólastofu, í opnu rými, eða bara úti í garði. Hvort nemandinn situr í sömu sætaröð og áður eða liggur á maganum á gólfinu við iðju sína, segir heldur ekkert um það hvort kennslan mæti þörfum hans eða ekki. Sama er að segja um tölvunotkun. Það eitt að vinna einn við tölvu tryggir heldur ekki að nemandanum fari hratt og greinilega fram. Til þess þarf sérhannaðan kennsluhugbúnað með tíðri viðgjöf sem stýrir námsferlinu markvisst. “Við þjálfun einstaklinga eru heldur engar sérstakar “hægar ferðir”. Þegar kennt er með “beinum fyrirmælum” og “hnitmiðaðri færniþjálfun” eru allir nemendur á fullu að vinna og æfa sig, þótt þeir séu kannski ekki allir staddir á sama stað í námsefninu, og að kennsluaðferðirnar feli sjálfar í sér afgerandi bekkjarstjórnun þar sem allir nemendur eru sívirkir í náminu,” segir hún.

“Einnig vil ég benda á, að þótt kennsla sé klæðskerasniðin að þörfum tiltekins nemanda, þýðir það ekki að hún verði jafnframt klínísk í sálfræðilegri og læknisfræðilegri merkingu. Með öðrum orðum, á meðan við höfum skólaskyldu en ekki bara fræðsluskyldu, bíður það verkefni yfirvalda skólamála að finna leið til að koma til móts við foreldra í þessu sambandi,” segir hún og að þetta megi væntanlega gera með ýmsum hætti. Ein leið eru samningar við þá sem sérhæfa sig í þjónustu við nemendur sem þurfa mjög fínstillta og þétta kennslu, sumir til langs tíma. “Það mætti jafnvel ganga enn lengra og árangurstengja slíka samninga út frá tilteknum umsömdum viðmiðum. Eins og forystumenn í öðrum greinum hafa rækilega bent á, má mikið og margþætt hagræði hafa af því hjá hinu opinbera að kaupa af fyrirtækjum sérhæfða þjónustu til vel skilgreindra verkefna,” segir hún.

Aðferðir

Aðferðirnar “bein fyrirmæli” og “hnitmiðuð færniþjálfun með mælingum” eru báðar þekktar og notaðar víðs vegar um heiminn. “Það sem við ættum þó sérstaklega að hugsa um er að í ljós hefur komið að þegar aðferðunum er beitt saman virðast áhrifin, sem þær hafa hvor um sig, magnast upp og besta kunnáttu nemandans – bingó! Nemandinn lærir meira á skemmri tíma en áður og man það áfram. Miðað er við að hann haldi þeirri frammistöðu, þrátt fyrir utanaðkomandi truflun, þótt æfingatíminn lengist, eða langt sé um liðið frá síðustu æfingu,” segir hún.

Afköst nemandans eru mæld í hverjum tíma og miðað við að hann bæti sig vikulega a.m.k. tvöfalt (100%) þar til tilteknum fyrirfram ákveðnum vísitölum er náð, s.s. eins og að geta sagt 20 samheiti á mínútu, svo dæmi sé tekið. Þá er sagt að nemandinn hafi náð fljúgandi færni í viðfangsefninu og hann á í framhaldinu að geta beitt leikni sinni við önnur og fjölþætt verkefni sem byggjast á sama grunni, jafnvel einhver sem ekki hafa sérstaklega verið kennd. Viðfangsefni sem fela í sér hreyfileikni taka aðeins lengri tíma. En hraðari vöxtur en tvöföldun er einnig vel þekktur. Ef einhverjar tafir verða á framförum nemandans, er athugað strax hvað það er sem heldur aftur af honum og því kippt í lag. Oftast felur slík íhlutun í sér að finna annan stað í námsefninu sem mætir betur þörfum hans. Einnig getur verið að hanna þurfi framsetningu námsefnisins betur t.d. með fínni fleygun. Kennarar, sem eru leiknir í að beita saman “beinum fyrirmælum” og “hnitmiðaðri færniþjálfun með mælingum”, ná stöðugum og afgerandi árangri í kennslu. “Ég hvet fólk til að kynna sér gögn frá Morningside Academy, Ben Bronz-skólanum í Connecticut, og einnig frá Fabrizio og Moors-ráðgjafarþjónustunni við kennslu einhverfra, svo að dæmi séu tekin.”

Heimaþjónusta

Guðríður fer á heimili til að kenna fólki. “Það var ekkert sem ég ákvað í byrjun, hún bara skapaðist af eftirspurn,” segir hún. “Fólki finnst ómetanlegt að geta fengið til sín klæðskerasniðna þjónustu á umsömdum tímum. Ég reyni að mæta þörfum fólks eins vel og ég get og byrja á því að hitta nemandann einu sinni og athuga hvort námsvandi hans sé þess eðlis að ég geti hjálpað. Sá tími er án skuldbindinga, en síðan er meginreglan sú að samið er um eina kennslulotu í senn sem er 10 klukkustundir.”

“Það sem ég býð í vetur er annars vegar kennsla og þjálfun í hljóðgreiningu, lestri og skrift, og hins vegar í talnaleikni og reikningi. Í reikningnum er námsefnið m.a. hannað í svokallaðar talnafjölskyldur,” segir hún. “Það auðveldar og flýtir reikningsnáminu til muna, auk þess að búa nemandann vel undir algebru og aðra almenna stærðfræði. Eins og kennsluaðferðirnar fela í sér æfa nemendur sig mikið að reikna og ná því að kunna reiprennandi margföldunartöfluna og aðrar reiknireyndir s.s. 7-3 = 4 án þess að þurfa að telja á fingrum sér eða slá dæmið inn á vasareikni, hafa tölurnar á bandi fyrir framan sig eða giska á svarið. Í lestrinum æfa nemendur sig í að umskrá bókstafi í málhljóð og málhljóð í bókstafi, þ.e. lesa og skrifa. Nemendur sem læra þannig verða ekki hljóðvilltir og geta lesið áður óséðan texta, nokkuð sem reynist erfitt þeim sem kennt var að lesa með því að læra að þekkja tiltekin orð.”

Atferlisgreining, sími,  56214 67, adda@ismennt.is