Sérfræðivottun BCBA

Síðastliðna tvo áratugi hefur hröð þróun og uppbygging átt sér stað í atferlisgreiningu í Bandaríkjunum og víða í Evrópu. Eftirspurn eftir þjónustu fólks með menntun og reynslu í atferlisgreiningu fer vaxandi. Í samræmi við vaxandi eftirspurn var komið á fót alþjóðlegri sérfræðivottun í atferlisgreiningu (Board Certified Behavior Analyst) til að gera aðilum sem njóta þjónustu atferlisgreinenda betur kleift að greina á milli þeirra sem hafa lágmarksmenntun og reynslu í atferlisgreiningu og þeirra sem hafa ekki þessa menntun og reynslu. Til að hljóta sérfræðivottun þarf sérfræðingur að uppfylla kröfur um bóklegt nám og starfsreynslu í atferlisgreiningu og að standast próf sem BACB stofnunin stendur að. Einnig þarf sérfræðingur að uppfylla kröfur um endurmenntun til að halda sérfræðivottuninni. Sérfræðingum sem starfa innan atferlisgreiningar ber þó ekki skylda til að standast kröfur um sérfræðivottun til að geta starfað sem atferlisgreinendur. Þetta er ekki löggilding. Hins vegar gera atvinnuveitendur og skjólstæðingar í Bandaríkjunum nú til dags kröfur til sérfræðinga sem veita ráðgjöf og hafa umsjón með atferlismeðferð, að þeir hafi þessa vottun. Margir skólar í Bandaríkjunum og Evrópu með framhaldsnám í atferlisgreiningu leggja áherslu á undirbúningsnám fyrir BCBA prófið. Þá hefur Háskólann í Reykjavík hafið námskeið í atferlisgreiningu í MSc-náminu í sálfræði sem uppfyllir kröfur til þess að taka BCBA prófið. Sérfræðingar með BCBA sérfræðivottorð þurfa að uppfylla kröfur um endurmenntun yfir þriggja ára tímabil. Hafi þeir ekki uppfyllt þessar kröfur fellur sérfræðivottun þeirra úr gildi. Þann 27. ágúst 2016 uppfylltu sex Íslendingar starfandi á Íslandi kröfur um BCBA sérfræðivottun.

Nánari upplýsingar um sérfræðivottunina má finna á heimasíðu The Behavior Analysis Certification Board